LH fært upp um flokk hjá Afrekssjóði ÍSÍ

15.11.2019 - 14:20
Á fundi Afrekssjóðs ÍSÍ þann 29. október sl. var samþykkt að færa Landssamband hestamannafélaga úr flokki C í flokk B og hefur framkvæmdastjórn ÍSÍ staðfest þá ákvörðun. Breytingin tekur gildi þann 1. janúar 2020.

Miklar breytingar voru gerðar á afreksstarfi LH á árinu og skilaði það góðum árangri landliðsins á HM. Stofnaðir voru landsliðshópar fullorðinna og U21 sem starfræktir eru allt árið um kring, hæfileikamótun 14-17 ára unglinga hefst um næstu áramót og þannig er komin samfella í afrekstarfið allt frá unglingaflokki upp í fullorðinsflokk. Umgörð um afreksmálin hefur verið efld, heilbrigðisteymi er starfandi, ráðinn hefur verið verkefnastjóri afreksmála og landsliðshópum er boðið upp á reglulega fræðslu og fyrirlestra.

Í formlegri tilkynningu frá framkvæmdastjóra ÍSÍ segir:
„Afreksstarf LH hefur tekið miklum breytingum á síðasta ári og árangur keppenda verið frábær. Það hefur ekki farið fram hjá stjórn sjóðsins sem og þeim fulltrúum ÍSÍ sem fundað hafa með sambandinu á stöðufundum og við önnur tilefni. LH á hrós skilið fyrir það starf sem hefur verið unnið.“

Til að sérsambönd séu metin í flokk B/alþjóðlegra sérsambanda þarf viðkomandi sérsamband m.a. að vera með öfluga hæfileikamótun og vera með einstaklinga sem talið er að geti komist í fremstu röð í heiminum í sinni íþróttagrein. Við mat innan flokksins er sérstaklega horft til umfangs alþjóðlegrar þátttöku í viðkomandi íþróttagrein og afrekslista viðkomandi greinar.
 
lhhestar.is